138. löggjafarþing — 36. fundur,  2. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[21:41]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (um fundarstjórn):

Hæstv. forseti. Ég er að velta fyrir mér framhaldi funda hér. Nú hefur ekkert verið gefið upp um það hvenær fundi lýkur eða hvernig því verður háttað og verðum við trúlega um sinn að sætta okkur við að ekki komi svör við því af forsetastóli.

Ég vildi hins vegar inna hæstv. forseta eftir því hvort eitthvað væri vitað um ferðir ráðherra ríkisstjórnarinnar. Sumir þeirra eru hér og hafa verið, t.d. hefur hæstv. fjármálaráðherra setið hér vel meðan á umræðunni hefur staðið en aðrir ráðherrar ríkisstjórnarinnar misvel. Ég nefni sérstaklega hæstv. forsætisráðherra og hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra en það mál sem hér er til umræðu er auðvitað á ábyrgð ríkisstjórnarinnar í heild og varðar gríðarlega mikla þjóðarhagsmuni. Því er eðlilegt að hæstv. forsætisráðherra sé hér viðstaddur. Efnahags- og viðskiptaráðherra, það þarf ekki að (Forseti hringir.) skýra hvers vegna æskilegt er að hann sé hér, það skýrist af heiti titils hans.