138. löggjafarþing — 36. fundur,  2. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[21:49]
Horfa

Illugi Gunnarsson (S) (um fundarstjórn):

Frú forseti. Ég vil taka undir þær áskoranir sem margir hv. þingmenn hafa beint til forseta um að svipast um eftir hæstv. ráðherrum í ríkisstjórninni, einkum og sér í lagi hæstv. forsætisráðherra, vegna þess að komið hafa fram ummæli í umræðunni, m.a. hjá hæstv. utanríkisráðherra, sem eru þannig að það er eðlilegt að við hv. þingmenn höfum áhyggjur af því hvort fullur skilningur ríki t.d. á því grundvallaratriði að með því frumvarpi sem hér hefur verið lagt fyrir er verið að hverfa í meginatriðum frá þeirri grundvallarhugsun sem lá að baki fyrirvörunum sem settir voru vegna efnahagsþáttarins. (Gripið fram í.) Það er lykilatriði og það virðist vera ákveðinn misskilningur um þetta. Þess vegna væri til bóta að fleiri hæstv. ráðherrar væru hér í umræðunni. Ég hef tekið eftir því að hæstv. utanríkisráðherra hefur setið hér nokkuð ásamt hæstv. fjármálaráðherra sem setið hefur hér oft og ber að þakka það. (Forseti hringir.) En það vantar fleiri ráðherra og alveg tilfinnanlega, frú forseti, hæstv. forsætisráðherra sem ber ábyrgð á öllu málinu.