138. löggjafarþing — 36. fundur,  2. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[21:57]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F) (um fundarstjórn):

Frú forseti. Já, ég get líka tekið undir orð hv. þm. Sigmundar Ernis Rúnarssonar um að sem flestir ættu að láta sjá sig hér og taka þátt í umræðunni því að það hefur nú mikið vantað upp á að stjórnarliðar geri skoðun sína ljósa. Menn velta því fyrir sér hvers vegna sú er raunin og telja þá líklegt að þeir treysti sér einfaldlega ekki til að verja það frumvarp sem hér er verið að þvinga í gegnum þingið.

En ég vildi þó ítreka það sem komið hefur fram áður varðandi að þessari fullkomnu óvissu um hversu lengi fundurinn á að standa verði eytt. Þótt menn séu tilbúnir að vera hér eins lengi og þurfa þykir þurfa þeir að hafa einhverja vitneskju um hvernig starfinu verður háttað. Það eru ekki bara þingmenn sem vinna í þessu húsi. Hér er fjöldinn allur af starfsmönnum um allt hús sem hefur ekki hugmynd um hvenær þinghaldinu lýkur í kvöld.