138. löggjafarþing — 36. fundur,  2. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[21:58]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta fjárln. (Þór Saari) (Hr) (um fundarstjórn):

Frú forseti. Ég kem hér upp í liðnum um fundarstjórn forseta. Mig langar aðeins að minnast á það sem hv. þm. Sigmundur Ernir Rúnarsson sagði hér áðan. Ég vil taka það fram að ég er ekki í stjórnarandstöðu, ég er að vísu ekki heldur í stjórninni, en við tökum afstöðu með og á móti málum á forsendum málanna. Ég hef stutt fjölmörg mál ríkisstjórnarinnar síðan nýtt þing hófst hér í vor. Ég studdi m.a. og beitti mér fyrir frumvarpi um eignaumsýslu ríkisins. Ég studdi Bankasýslu ríkisins. Við eyddum talsverðum tíma í það. Þau mál safna ryki uppi á hillu einhvers staðar og það á ekkert að gera með þau. Icesave-málið er mál sem mér er lífsins ómögulegt að samþykkja. Það er mjög vont mál fyrir land og þjóð og eitthvert versta mál sem nokkurn tímann hefur komið inn á gólf þessa þinghúss. Þess vegna beiti ég mér gegn því. Komi ríkisstjórnin fram með önnur mál, lýðræðisvæn mál, mun ég að sjálfsögðu styðja þau. Ég er ekki hér í stjórnarandstöðunni af prinsippinu (Forseti hringir.) einu saman.

(Forseti (UBK): Forseti vill minna hv. þingmenn á að ræða undir þessum lið um fundarstjórn forseta.)