138. löggjafarþing — 36. fundur,  2. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[22:02]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (um fundarstjórn):

Frú forseti. Ég tel mig ekki vera að stunda málþóf. Ég kemst yfirleitt ekki yfir þá punkta sem ég ætla að ræða í ræðum mínum og ég á enn eftir að ræða eina 7–8 punkta og svo bætast alltaf einhverjir við vegna þess að umræðan gefur alltaf tilefni til að ræða nýja fleti á þessu máli, þeir eru alltaf að koma í ljós. Og þeir hafa komið það margir í ljós undanfarna daga að það er ástæða fyrir hv. nefnd að fjalla um málið meðan á umræðunni stendur til að hægt sé að spyrja gesti og fá frekari upplýsingar. Ég get ekki skikkað hv. stjórnarliða til að mæta í pontu en ég geri ráð fyrir að kjósendur vilji fá að vita hvers vegna í ósköpunum þeir ætli að samþykkja þetta frumvarp og skella þessum kvöðum á íslenska þjóð til 20, 30, 40 ára og gera hana fátæka.