138. löggjafarþing — 36. fundur,  2. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[22:17]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta fjárln. (Þór Saari) (Hr) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þm. Illuga Gunnarssyni fyrir andsvarið. Vissulega er hér ekki um að ræða neitt venjulegt mál og ég held að þetta sé í rauninni algerlega fordæmalaust hvað varðar milliríkjasamskipti. Það að þjóðir geri kröfu í helming landsframleiðslu þjóðar er miklu, miklu meira en Bretar gerðu nokkurn tíma á hendur Þjóðverjum að lokinni fyrri heimsstyrjöldinni, þannig að bara þær upphæðir sem um er að ræða eru af því kalíberi að þetta mál er fáránlega vaxið ef menn horfa á það einhverjum raunhæfum augum. Svo koma menn saman og berja sér á brjóst og segja: Við getum víst borgað þetta og munum víst borga þetta. Ég er þeirrar skoðunar að það sé einfaldlega ekki hægt að borga þetta og þar sem Bretar og Hollendingar neita að gefa nokkuð eftir í þessu máli sé þetta milliríkjadeila og þess vegna verði einfaldlega að fá einhverja utanaðkomandi aðila til að reyna að leita sátta í þessu geggjaða máli.

Ég þreytist aldrei á að minna á það að þegar við lásum yfir fyrstu lánasamningana í júní fengum við Elviru Méndez, dósent við Háskóla Íslands, til að fara yfir þá. Hún er sérfræðingur í Evrópurétti. Hún sagði að samningarnir væru þess eðlis og það hallaði það mikið á annan samningsaðilann í þeim að fyrir hvaða Evrópudómstóli sem væri yrðu samningarnir dæmdir ólöglegir á þeim forsendum að of mikið hallaði á annan samningsaðilann. Það var hennar niðurstaða um þessa samninga og samningarnir sem núna liggja fyrir eru hálfu verri en þeir sem voru þá, ég tala ekki um þegar búið er að taka alla fyrirvarana úr sambandi, þá eru þetta samningar sem eru óásættanlegir fyrir Íslendinga og óásættanlegir fyrir evrópskum dómstólum vegna þess að svo mikið hallar á annan samningsaðilann. Þetta ætla ríkisstjórn Íslands og þingmenn hennar að samþykkja. Þar segi ég bara nei takk.