138. löggjafarþing — 36. fundur,  2. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[22:20]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta fjárln. (Þór Saari) (Hr) (andsvar):

Frú forseti. Ég er alveg sammála hv. þm. Illuga Gunnarssyni um að hér sé um að ræða mál þar sem hallar svo mikið á annan samningsaðilann að hann er knésettur í málinu. Við getum ekki veitt mikla viðspyrnu enda smáþjóð að glíma við tvö stórveldi. Ríkisstjórninni virðist hafa láðst að íhuga þann möguleika af einhverri alvöru að leita aðstoðar erlendis frá. Á einhverjum tímapunkti voru Frakkar tilbúnir til að aðstoða Íslendinga í þessu máli en sú aðstoð gufaði upp einhverra hluta vegna.

Það er ekki Evrópu til framdráttar að sitja aðgerðalaus og horfa á þetta mál og þeir evrópsku embættismenn sem ég ræði reglulega við eru einfaldlega sammála mér um það að Ísland geti ekki staðið undir þessum skuldbindingum og eigi ekki að gera það og það sé einfaldlega leiðin út úr þeim að reyna að finna aðra lausn á þessu máli heldur en að kokgleypa allt sem fyrir okkur er lagt. Við mundum hvort eð er (Forseti hringir.) eiga meiri möguleika fyrir dómstólum því þar er alla vega smáséns á því að dæmt yrði okkur í hag. Ef dæmt yrði okkur í óhag sætum við hvort eð er í sömu súpu (Forseti hringir.) og við erum í núna.