138. löggjafarþing — 36. fundur,  2. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[22:28]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni ágæta ræðu. Nú ber vel í veiði þar sem hv. þingmaður er hagfræðingur og mig langar til að spyrja hann um vissa þætti. Í skýrslu Seðlabankans til efnahags- og skattanefndar kemur fram að menn telja að orsökin fyrir lágum hagvexti í Japan hafi verið mikil skuldsetning, m.a. ríkissjóðs, og síðan segir í þeirri sömu skýrslu að búist sé við mjög lágu raungengi krónunnar á næstu árum og svo er gert ráð fyrir því að útflutningur mínus innflutningur fari upp í að vera 11, 12, 13% af landsframleiðslu sem þýðir það að menn búast ekki við aukningu útflutnings heldur að innflutningur dragist mjög mikið saman. Hvað þýðir þetta eiginlega á mannamáli? Hvað þýðir það ef hagvöxtur verður enginn? Hvað gerist þá í þjóðfélaginu? Hvernig verður launaþróun o.s.frv. ef enginn hagvöxtur er í 10, 15, 20 ár? Hefur hv. þingmaður dæmi um það frá öðrum löndum hvað gerist? Eins hvað gerist ef raungengið verður mjög lágt, hvað þýðir raungengi fyrir almenning? Hvað þýðir það ef innflutningur verður mjög lítill?