138. löggjafarþing — 36. fundur,  2. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[22:34]
Horfa

Tryggvi Þór Herbertsson (S) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Nú er klukkan rúmlega hálfellefu og það liggur ekki fyrir hversu lengi fundurinn á að standa. Ég á eftir að tjá mig þó nokkuð mikið um þetta blessaða mál sem nú er til umræðu og ég hef sett mig á mælendaskrá. Fyrir liggur að ég get flutt nokkrar 10 mínútna ræður eða eins margar og ég vil en ég þarf nokkrar til að koma þeim skilaboðum til skila sem ég þarf eða vil.

Mig langar til að biðja virðulegan forseta um að beita sér fyrir því að einhver botn verði fenginn í það hvenær fundi lýkur í nótt eða hvort hann verði í fyrramálið svo maður geti reynt að undirbúa þessar ræður (Forseti hringir.) meðan nóttin líður.