138. löggjafarþing — 36. fundur,  2. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[22:40]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (um fundarstjórn):

Frú forseti. Ég vil þakka hæstv. forsætisráðherra fyrir að vera í hliðarsal og hlýða á þessa umræðu. Jafnframt vil ég lýsa ánægju minni með að varaformaður fjárlaganefndar er hér einnig og ég sé að hann innbyrðir hvert einasta orð sem fer úr þessum ræðustól.

Mig langar, virðulegi forseti, að nefna eitt atriði sem hefur komið fram allnokkrum sinnum, þ.e. að upplýsa þingmenn um hvort forsendur séu fyrir einhvers konar breytingum, hversu smávægilegar eða stórar þær kunna að vera á því frumvarpi sem nú liggur fyrir. Það hefur ekki verið upplýst, frú forseti, og hefur verið óskað eftir að forseti beiti sér fyrir því að það verði upplýst.

Frú forseti. Jafnframt óska ég eftir að forseti láti kanna hvernig fjárlaganefnd hyggst vinna málið milli umræðna. Eftir því hefur líka verið kallað, frú forseti.