138. löggjafarþing — 36. fundur,  2. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[22:47]
Horfa

Illugi Gunnarsson (S) (um fundarstjórn):

Frú forseti. Það er rétt að taka tillit til þess að langt er liðið á kvöld og kannski ekki hægt að gera miklar kröfur til hæstv. ráðherra um að fylgjast með því sem hér fer fram í ræðustólnum. En þó er klukkan ekki orðin það margt að ekki sé hægt að ætlast til að það sé a.m.k. lágmarksskilningur á því sem hér gerist.

Það sem hér var sagt, frú forseti, var nákvæmlega þetta, að við í stjórnarandstöðunni erum að ræða þetta mál og ætlum að ræða það út í hörgul. Í þessari umræðu hafa ýmis ný atriði komið fram sem hafa vakið athygli. Ég hjó eftir því áðan, þegar það var nefnt af hv. þingmanni, að þá hló við hátt hæstv. félagsmálaráðherra og fannst það skemmtilegt. Það er þannig að í þessari umræðu hafa komið fram athugasemdir, m.a. frá virtum lagaprófessorum sem hafa bent á ýmsa veikleika í frumvarpinu og hættu á því að það stangist á við stjórnarskrá. Það hafa komið fram merkileg atriði sem snúa að umræðunni um breytilega vexti og fasta vexti.

Ég skil vel að hæstv. ráðherra sé skemmt og hann telji að hér sé á ferðinni málþóf því að hann hefur lítið sést í þessari umræðu og sjaldan kvatt sér hljóðs nema þá helst um fundarstjórn forseta.