138. löggjafarþing — 36. fundur,  2. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[23:03]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta fjárln. (Höskuldur Þórhallsson) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Pétri Blöndal fyrir ágætisræðu. Sérstaklega þakka ég honum fyrir að koma með tillögur að lausn málsins, sem ég tel í fljótu bragði að sé mjög skynsamleg. Ég vek athygli á því að þegar samninganefndin reyndi í fyrsta skipti að semja við Breta og Hollendinga leitaði hún á náðir breskrar virtrar lögmannsstofu. Sérfræðiþekkingu hennar var hafnað af einhverjum ástæðum sem ég átta mig ekki fyllilega á, kannski vegna þess að lögmannsstofan komst að þeirri niðurstöðu að Íslendingar hefðu mjög góðan málstað að verja. Við kölluðum eftir því í umræðunni að ef það væru einhver leyniskjöl, eitthvað sem lægi einhvers staðar í málinu og ætti eftir að birta þjóðinni kæmi það fram. Og viti menn, upp dúkkaði þetta lögfræðiálit einnar virtustu bresku lögmannsstofu sem starfar fyrir lönd úti um allan heim en það fór bara gegn því sem íslenskir ráðamenn vildu. Ég held að það sé vert að taka undir það að menn reyni með aðstoð færustu sérfræðinga, t.d. Lees Buchheits, að ná hagstæðari samningum.

Mig langaði aðeins að spyrja þingmanninn út í þær fullyrðingar fjármálaráðherra að það að skuldsetja þjóðina upp úr öllu valdi geti leyst efnahagsvanda þjóðarinnar. Þetta er einhvern veginn eins og að heimilisfaðirinn kæmi heim til konunnar sinnar, eða öfugt, og segði: Ég er búinn að redda öllum okkar málum. Við skuldum helling, en ég er búinn að taka miklu stærra lán og við greiðum með því skuldir sem eru (Forseti hringir.) ekki okkar, heldur nágranna okkar, og þar með reddast öll okkar mál. (Forseti hringir.)

Hefur þingmaðurinn (Forseti hringir.) skoðun á þessu?