138. löggjafarþing — 36. fundur,  2. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[23:18]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Herra forseti. Þetta er einn af þeim punktum sem ég vonast til að geta rætt í nótt ef ég fæ að komast nægilega oft að. Áhættugreining á þessu dæmi er mjög áhugaverð því það er mjög hættulegt í rauninni. Á árunum 1920–1935 var verðhjöðnun í Bretlandi. Pundið styrktist og styrktist og vöruverð lækkaði og lækkaði. Í 15 eða 20 ár var þessi staða. Ef við lentum í slíkri stöðu fengjum við sífellt minna fyrir vörurnar sem við flyttum út til Bretlands og þyrftum alltaf að borga verðmætari pund með 5,55% vöxtum. Þetta getur endað sem 7–8% raunvextir sem er óbærilegt, frú forseti. Það tvöfaldar fjármagn á sjö til tíu árum. Ef ég lána einhverjum manni nýtt hús skal hann borga mér tvö ný hús eftir átta eða níu ár. Ég fór í gegnum þetta í fyrri ræðu minni um áhrif raunvaxta.

Svo var verðbólga í Bretlandi í 15 ár frá 1987, allt upp í 20%. Það yrði gósentíð fyrir Íslendinga ef slík staða kæmi upp, ef það yrði 10% verðbólga í Bretlandi til ársins 2024. Þá hefði ég engar áhyggjur, herra forseti, ekki nokkrar einustu. Þá væri bara gaman að lifa. Við fengjum alltaf 10% meira fyrir fiskinn okkar og álið á hverju einasta ári í pundum og við ættum létt með að borga þessi síminnkandi pund og evrur, svo maður tali nú um ekki eftir sjö ár, þá yrði þetta nánast orðið verðlaust rusl.

Svona áhættu erum við að taka, herra forseti, vegna þess að menn taka alltaf meðaltölin en skoða ekki frávikin. (Forseti hringir.)