138. löggjafarþing — 36. fundur,  2. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[23:32]
Horfa

Margrét Tryggvadóttir (Hr) (andsvar):

Herra forseti. Ég vil byrja á að taka það fram að ég er ekki spákona og get í raun og veru ekki getið mér til um afstöðu annarra né hvers vegna þeir kjósa að haga sér með þeim hætti sem þeir gera. Fyrir mér eru engin rök nægilega góð til að samþykkja Icesave og fyrir utan strútsheilkennið sem ég nefndi áðan er tvennt sem mér hefur dottið í hug. Það er annars vegar Evrópusambandið, að Icesave sé aðgöngumiði okkar inn í það og kannski finnst Samfylkingunni það þess virði að kaupa þann aðgöngumiða dýrum dómum. Ég hef mestar áhyggjur af því að við gerum það en förum svo ekkert í Evrópusambandið vegna þess að almenningur er búinn að sjá í gegnum þetta plott allt saman og kærir sig ekkert um að ganga þangað inn.

Hitt sem mér dettur í hug er vinstri stjórnin og af því að ég þekki og á marga vini sem eru vinstri menn veit ég að mörgum vinstri mönnum finnst eiginlega öllu fórnandi fyrir vinstri stjórn og ég held að það sé ein af ástæðunum.

Hv. þingmaður spurði líka hvort hægt væri á þessu stigi málsins að taka upplýsta ákvörðun. Ég held eiginlega ekki vegna þess að þetta mál vísar svo langt fram í tímann að við getum ekki séð hvernig það þróast. En það er rétt sem hv. þingmaður benti á að hér hafa verið fluttar margar efnismiklar ræður sem fáir hafa hlustað á og það er auðvitað mjög slæmt.