138. löggjafarþing — 36. fundur,  2. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[23:51]
Horfa

Tryggvi Þór Herbertsson (S) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Nokkuð hefur borið á því að stjórnarþingmenn hafi haldið því fram að við værum í málþófi og værum einfaldlega að reyna að kúga meiri hlutann inn í eitthvað sem ég veit ekki hvað er. Það er alrangt. Ástæðan fyrir því að við erum að biðja um skýringar á því hvenær fundi verði lokið er sú að það eru margir sem eiga eftir að taka til máls. Mælendaskráin er engan veginn tæmd og það eru margir punktar sem taka þarf tillit til. Það er ljóst að mælendaskrá tæmist ekki í nótt þannig að fundi verður haldið áfram á morgun og það er helst til gassalegt að bjóða þingmönnum upp á að standa hér í einn og hálfan sólarhring. Með því er ég ekki að segja að ég sé ekki tilbúinn til að vinna. Ég skal taka á móti öllum þeim lömbum sem ég þarf að taka á móti. En væri hægt að skýra, virðulegi forseti, hvenær fundi verður lokið eða er það bara þetta standardplan, mælendaskrá? Er það skipanin?