138. löggjafarþing — 36. fundur,  2. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[23:54]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta fjárln. (Höskuldur Þórhallsson) (F) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Ég er þeirrar skoðunar, eftir að hafa hlustað á umræður, að forustumenn stjórnarandstöðunnar hafi tjáð sig efnislega um málið. En það væri kannski ráð að hæstv. forseti (Gripið fram í.) — það er hægt að hlusta á skrifstofum sínum eða heima hjá sér ef það er það sem við erum að tala um.

(Forseti (ÁÞS): Forseti biður um hljóð í þingsal.)

Ég óska eftir að tími minn verður lengdur sem nemur þessari truflun utan úr sal af hálfu hv. þingmanna stjórnarmeirihlutans. En ég óska eftir því að hæstv. forseti beiti sér fyrir því að þingmenn stjórnarmeirihlutans komi og ræði málið efnislega. Ég minnist þess að hæstv. félags- og tryggingamálaráðherra tjáði sig um málið og hélt því fram að ráðuneytisstarfsmenn, lágt settir, gætu bundið íslensku þjóðina í Icesave-málinu. Það var málflutningur hans fyrir fimm mánuðum eða svo. Síðan hef ég ekkert heyrt. Mér þætti mjög vænt um að fá einhverjar efnislegar umræður frá stjórnarmeirihlutanum.