138. löggjafarþing — 36. fundur,  2. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[23:59]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (um fundarstjórn):

Hæstv. forseti. Ég fagna því ákaflega að hv. þm. Róbert Marshall hefur fengið málið og er farinn að taka þátt í umræðum. Ég vænti þess að hann komi á mælendaskrá og geri grein fyrir skoðunum sínum á málinu. En vegna fundarstjórnarinnar og stöðu mála í þinginu ætla ég að lesa smátilvitnun, með leyfi forseta:

„Hér er verið að hespa mál í gegn, herra forseti, og krefja þingmenn um að vinna mun lengur en lögin um aðbúnað, hollustu og öryggi á vinnustað segja til um. Hvers lags vitleysa er þetta orðin? Svo er manni sagt að önnur mikilvæg mál verði ekki tekin á dagskrá fyrr en búið er að gera þessi mál að lögum. Það er auðvitað ekkert vit í þessum vinnubrögðum.“

Þetta sagði hæstv. forsætisráðherra einu sinni. Ég hef ekki mikið fjallað um þessi lög um hvíldartíma og samfelldan vinnutíma, en þetta sagði hæstv. forsætisráðherra í maí 2004 og þessi orð eiga mjög vel við núna.