138. löggjafarþing — 36. fundur,  3. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[00:01]
Horfa

félags- og tryggingamálaráðherra (Árni Páll Árnason) (Sf) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Það er athyglisvert það fát sem kemur á menn þegar kallað er eftir viðveru formanna málþófsflokkanna tveggja. Það er greinilegt að formennirnir eru búnir að setja sveitir sínar af stað, þeir hafa falið þeim verkefni að halda áfram gagnslitlum þráspurningum hver gegn öðrum í nótt meðan þeir sjálfir eru heima og sofa svefni hinna réttlátu. (Gripið fram í.) Það er athyglisvert að sjá að það er mjög viðkvæmt mál fyrir málþófsflokkana þegar bent er á hvaða leik þeir eru að leika. (Gripið fram í.)

Og vegna þess að hér var vitnað í orð hæstv. forsætisráðherra, sem hún sem stjórnarandstöðuþingmaður lét falla í maí 2004, er vert að hafa í huga að stjórnarandstaðan þá bar alla vega þá virðingu fyrir lýðræðinu að hún leyfði meiri hlutanum að láta atkvæði ganga um það mál sem var til umræðu. (Gripið fram í.) Þessi stjórnarandstaða (Gripið fram í.) hér er svo smá í (Gripið fram í.) sniðum (Forseti hringir.) að hún reynir að koma (Forseti hringir.) í veg fyrir að meiri hlutinn (Forseti hringir.) fái að koma skoðun sinni á framfæri.