138. löggjafarþing — 36. fundur,  3. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[00:07]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Mjór er mikils vísir. Ég vil benda virðulegum forseta á að klukkan var farin af stað áður en ég fór í pontu þannig að eitthvað þarf að laga það. En það er ágætt að stjórnarliðar hafi safnast saman í þinghúsinu. Gott ef þeir hlusta. Þeir ættu að vera búnir að átta sig á því að það er búið að spyrja þá spurninga hvað eftir annað sem ekki er svarað. Þá er það spurningin, virðulegi forseti: Hvenær komast þeir á það stig að þeir fari að tjá sig, jafnvel sjálfur hæstv. félags- og tryggingamálaráðherra? (Fél.- og trmrh.: Ég hef haldið svo margar ræður í þessu máli að það er alger óþarfi ...) Við bíðum spennt. Sérstaklega þurfa þeir að skýra það sem hv. þm. Tryggvi Þór Herbertsson kom inn á, hvers vegna sá grundvallarmisskilningur ríkir meðal þeirra að fyrirvararnir sem voru samþykktir í sumar séu inni í þessu samkomulagi. Það hefur enginn stjórnarliði þorað að verja þann málstað eftir að við bentum á það (Forseti hringir.) í byrjun kvölds.

Virðulegur forseti. Ég á örlítinn tíma (Forseti hringir.) því að klukkan fór af stað of snemma.

(Forseti (ÁÞS): Forseti stýrir fundi.)