138. löggjafarþing — 36. fundur,  3. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[01:05]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég held að skipta megi stjórnarþingmönnum í tvennt, meira að segja ráðherrum. Það er dálítið skrýtið að við erum að spekúlera í því hvað þetta fólk er að hugsa. Af hverju skyldum við gera það, frú forseti? Það er vegna þess að það tjáir sig ekki, það segir ekkert sjálft. Við þurfum að giska á hvernig í ósköpunum einhver ákveðinn þingmaður Vinstri grænna eða einhver ákveðinn þingmaður Samfylkingarinnar ákveður að samþykkja þennan samning. Við þurfum að giska á það. Ég held að í fyrsta lagi sé það kærleiksástin sem þeir ætla sér að finna hjá Evrópusambandinu. Það er ein skýring. Önnur skýring er sú að menn treysta á t.d. mat Seðlabankans sem var gott að meðaltali. Menn treysta því og segja: Þetta er gott og þó að það séu einhver frávik koma þau ekki upp. Þetta reddast allt saman einhvern veginn. Við skulum bara gleyma þessu og halda áfram með okkar yndislegu vinstri stjórn, leggja á okkar yndislegu skatta og halda svo áfram.