138. löggjafarþing — 36. fundur,  3. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[01:06]
Horfa

Árni Johnsen (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Í tilefni af orðum hv. þm. Péturs Blöndals er rétt að árétta að það skiptir öllu máli fyrir okkur sem þjóð að bera okkur vel, bera okkur þeim mun betur sem verr gengur. Það þýðir samt ekki að við eigum ekki að vinna vinnuna okkar og freista allra möguleika og allra tækifæra til að rétta okkar hlut sem hver einasti hv. þingmaður á Alþingi Íslendinga veit að hallar á vegna valdbeitingar. Þeir sem þegja mest þunnu hljóði vita það best. Þeir vita það best sem hafa unnið í þessu umhverfi og þekkja það. Það er ekki brúklegt fyrir Alþingi Íslendinga að menn taki ekki þátt í þeirri umræðu og leggi ekki sitt af mörkum, leggist ekki á árarnar til að verja Ísland.