138. löggjafarþing — 36. fundur,  3. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[01:19]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (um fundarstjórn):

Frú forseti. Ég vil koma því á framfæri, frú forseti, að það er ekki vegna þess að ég vilji ekki vera hérna þegar ég spyr um tímann, það er mjög mikilvægt að þessari umræðu verði gefinn góður tími og því ber að fagna. En ég vil, frú forseti, enn og aftur nefna það við hæstv. forseta að það boð stjórnarandstöðunnar að breyta dagskránni stendur að sjálfsögðu enn. Við getum þess vegna núna tekið inn frumvörp sem snerta skattamálin og talað um þau fram undir morgun ef það er vilji ríkisstjórnarinnar. Við viljum að sjálfsögðu liðka til fyrir dagskránni og ef forseti metur það svo að flýta þurfi þingfundi og byrja fyrr í fyrramálið en hálfellefu og hætta fyrr í kvöld munum við að sjálfsögðu fara yfir það. En ég vil ítreka, frú forseti, að það boð stjórnarandstöðunnar að hliðra til dagskrá þannig að önnur brýn (Forseti hringir.) mál komist áfram stendur.