138. löggjafarþing — 36. fundur,  3. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[01:24]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S) (um fundarstjórn):

Hæstv. forseti. Ég vil einfaldlega ítreka þær beiðnir okkar þingmanna að upplýst verði og tekin einhver ákvörðun um það hversu lengi fundur skal standa svo hægt sé að skipuleggja sig með tilliti til morgundagsins. Ég kvarta ekki undan því að vera hér, alls ekki, en það væri betra að fá að vita um það bil hve lengi forseti mun halda áfram þessum fundi.

Það kom fram athyglisverður punktur hjá hv. þm. Höskuldi Þórhallssyni, hvort atvinnustefna ríkisstjórnarinnar væri fundin. Ég verð að viðurkenna að mér brá talsvert þar sem ég hef leitað logandi ljósi að þeirri atvinnustefnu í sumar, allt sumarþingið, og aftur núna á haustþingi. Ég vona, frú forseti, að sú sé ekki stefnan hjá ríkisstjórninni að hækka skatta, lækka laun og lengja vinnutímann, þannig að það verði engin pása framar, ég vona að það sé ekki framtíðarsýnin og þykist vita að svo sé ekki.

Ég hafði misskilið forseta í dag, ég hélt að til stæði að halda fund með formönnum þingflokka og ég óska eftir að hæstv. forseti upplýsi mig um hvort það hafi verið misskilningur.