138. löggjafarþing — 36. fundur,  3. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[01:38]
Horfa

Tryggvi Þór Herbertsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Höskuldi Þórhallssyni fyrir þessa ágætu spurningu. Það liggur algjörlega ljóst fyrir að gæði til skiptanna eru takmörkuð og útgjöld hins opinbera bera það með sér að ef eytt er í annað er tekið frá hinu. Þegar um svona mikil útgjöld er að ræða og ef sú spá sem Seðlabankinn hefur sett fram fyrir okkur rætist verða lífskjör með þeim hætti, skattstofnar og annað slíkt, að það mun þurfa að skera mikið niður til að standa undir þessum skuldbindingum. Nú er ég þannig innrættur að ég vona innilega að þetta rætist ekki en aftur á móti er fyrir hendi hættan á því að þetta rætist. Þeirri hættu verðum við að bægja frá og við verðum að hefja okkur yfir pólitískar skotgrafir í að lágmarka þessa áhættu. Hérna er um efnahagslega framtíð Íslands að ræða. Menn geta snúið út úr ummælum eins og þessum og bent á að þetta sé bara illa dulbúin pólitík og annað slíkt en þá ætla ég að biðja þetta sama fólk um að útskýra þennan sama „mekanisma“ fyrir mér sem ég fór yfir áðan: Hvernig á dæmið að ganga upp ef það fer ekki eftir þeim leiðum sem ég talaði um áðan?