138. löggjafarþing — 36. fundur,  3. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[01:45]
Horfa

Tryggvi Þór Herbertsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er alveg rétt að við höfum fjölmörg dæmi frá Afríku og reyndar líka frá Suður-Ameríku þar sem skuldir hafa orðið gríðarlega miklar og vaxtabyrði og afborganir þannig að löndin ráða ekki við það. En skuldirnar hafa í hlutfalli við landsframleiðslu samt verið miklu lægri heldur en það sem við erum að takast á hendur hér á Íslandi.

Ég held að betra sé að horfa til Japans. Japanar söfnuðu gríðarlega miklum skuldum sem þýddi að það tók mjög mikið frá landsframleiðslunni að standa undir vaxtagreiðslum og öðru slíku. Þetta er talin vera ein af ástæðunum fyrir týnda áratugnum í Japan, þ.e. áratugnum þar sem var lítill sem enginn hagvöxtur og Japanar supu sem sagt seyðið af því.

Fólk verður að hafa í huga að það er einn grundvallarmunur á skuldasöfnun t.d. Japana og Íslendinga og það er að Japanar steyptu sér í skuldir til að fara út í framkvæmdir, framleiðslu og annað slíkt. Við fáum ekki neitt í staðinn fyrir þær skuldir sem búið er að þröngva upp á okkur. Þetta eru skuldir sem við borgum vegna þess að við vorum hluti af Evrópska efnahagssvæðinu sem og bankakerfið okkar. Það var þetta „cross border banking“, eins og það er kallað, sem stóðst ekki. Þegar kerfið hér hrundi sátum við uppi með reikninginn að ósekju og vorum neydd til að borga.