138. löggjafarþing — 36. fundur,  3. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[01:49]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Fram hefur komið að margir þingmenn hafa áhyggjur vegna hinna efnahagslegu fyrirvara og sitt sýnist hverjum um hvort þeir hafi veikst eða ekki. Því miður hefur kannski farið of lítið fyrir umræðum við stjórnarþingmenn um það. Þó hafa nokkrir talað og ber að þakka það, þar á meðal formaður fjárlaganefndar og fleiri og þökkum við að sjálfsögðu fyrir það.

Mig langar til að spyrja hv. þingmann um álit hans á þeirri breytingu sem gerð var á efnahagslegu fyrirvörunum. Nú hafa ýmsir, eins og ég sagði, rætt þetta hér og lögspekingar m.a. skrifað greinar um að samningurinn eða þetta nýja frumvarp sé mikið breytt frá því sem samþykkt var í ágúst. Mig langar til að spyrja hv. þingmann hvort hann taki undir það og þá hvað það er í efnahagslegu fyrirvörunum sem hann saknar einna mest, þ.e. hvar hættan liggur eiginlega varðandi þessa breytingu. Efnahagslegu fyrirvararnir eða sá þáttur var að sjálfsögðu einn af lykilþáttunum í því frumvarpi sem var samþykkt í haust eða síðsumars og því hljótum við að spyrja okkur hvort það sé virkilega þannig að hægt sé að færa rök fyrir því að þessi samningur sé betri, eins og einhverjir hafa sagt, en sá samningur eða það frumvarp sem var þó samþykkt á þingi. Því spyr ég hv. þingmann út í þessa breytingu á efnahagslegu fyrirvörunum því ég veit að hann er sérstakur áhugamaður um einmitt þá fyrirvara.