138. löggjafarþing — 36. fundur,  3. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[01:53]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mig langar til að halda áfram á svipuðum nótum. Ég held að ég fari með rétt mál þegar ég segi að í neyðarlögunum hafi m.a. verið samþykkt að við gætum greitt í íslenskum krónum það sem kynni að falla á okkur eða á tryggingarsjóðinn. Mig langaði til að kalla eftir því hjá hv. þingmanni hvaða hugsun hafi líklega verið að baki því að þetta ákvæði var sett inn því það skiptir okkur væntanlega töluverðu máli í hvaða mynt við greiðum af þessu láni. Vissulega hafa komið fram skoðanir, m.a. hjá hæstv. forsætisráðherra, um að það breyti í rauninni ekki öllu en mig langar til að velta því upp og spyrja hv. þingmann hvort hann geti útskýrt fyrir okkur af hverju þetta var sett inn í neyðarlögin.