138. löggjafarþing — 36. fundur,  3. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[01:55]
Horfa

Tryggvi Þór Herbertsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Í þeirri ríkisstjórn sem hæstv. forsætisráðherra sat í á þeim tíma var ég efnahagsráðgjafi þáverandi hæstv. forsætisráðherra. Ég benti mjög sterklega á það að við skyldum vera með heimild til að borga þetta í íslenskum krónum vegna þess að ef allt færi á versta veg væri þó hægt að losna við ábyrgðina með verðbólgu. Út af því var þessi fyrirvari settur inn í neyðarlögin. Það var hugsunin. Síðan var því kippt úr sambandi og menn hættu að styðjast við það vegna þess að þegar stjórnarslit urðu hér þá hvarf allt samhengi úr því sem verið var að gera og svona hlutir duttu upp fyrir og urðu að pólitísku álitaefni, einhverjir sjálfsagðir hagfræðilegir hlutir urðu að pólitísku álitaefni, (Forseti hringir.) eins og við heyrðum áðan frá hv. þm. Sigmundi Erni Rúnarssyni.