138. löggjafarþing — 36. fundur,  3. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[02:08]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta fjárln. (Höskuldur Þórhallsson) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Þór Saari fyrir spurninguna. Ég sat eins og hann í fjárlaganefnd í gær og hlustaði á hina ágætu lögspekinga fjóra. Það er rétt sem kom fram hjá honum að málflutningur þeirra fór ekki saman, þeir bentu á sumir að til að mynda værum við að afsala okkur réttinum til að láta dæma í málinu.

Ég tek heils hugar undir þau orð og þá greiningu sem Sigurður Líndal, okkar færasti stjórnskipunarfræðingur, hefur sett fram og Ragnar H. Hall tekið undir og Stefán Már Stefánsson lagaprófessor og Lárus Blöndal hæstaréttarlögmenn. Þetta eru þungavigtarmenn og á þá ber að hlusta. Þeir halda því einfaldlega fram að málið sé þannig að það sé of mikil óvissa um hversu há skuldbindingin er og það geti ekki staðist stjórnarskrána að við getum skuldbundið þjóðina svo langt fram í tímann, og telja um leið að þarna sé vegið að fullveldisréttindum í stjórnarskránni. (Gripið fram í: Hvað sagði Illugi?) Það sem mér þótti gott að heyra var að allir fjórir lögmennirnir, eftir að hafa reyndar fengið afar stuttan tíma til að mynda sér skoðun, voru reiðubúnir að ræða málið á efnislegan hátt. En það kom mjög skýrt fram, svo ég svari spurningunni, að það þarf að fara fram ítarlegt mat á því hvort lagasetningin sem við stöndum frammi fyrir brjóti í bága við stjórnarskrána. Og ég bendi á að kallaðir hafa verið til af mun minna tilefni (Forseti hringir.) færustu sérfræðingar, sem hafa skilað greinargerðum upp á tugi blaðsíðna, til að skera úr um ágreining.