138. löggjafarþing — 36. fundur,  3. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[02:11]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta fjárln. (Þór Saari) (Hr) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni svarið. Síðari spurning mín er kannski framhald á því sem hv. þingmaður var að ræða en það snýr meira að þessu meinta framsali á dómsvaldi til annarra dómstóla. Það kemur mjög skýrt fram í þessum breytingum á lögunum frá því í sumar að Hæstarétti Íslands er í rauninni meinað að kveða upp dóm nema sá dómur sé í samræmi við dóm þar til bærra dómstóla, ég man ekki nákvæmlega hvernig það er orðað. Það er verið að vísa þar til EFTA-dómstólsins. Mér sýnist sem svo að Hæstarétti beri að fylgja dómum sem koma erlendis frá. Fyrir leikmanni í lögfræði eins og ég er hljómar þetta þannig, og tel ég mig vera sæmilega læsan mann, að þarna sé einfaldlega verið að taka dómsvaldið af Hæstarétti og þar með hluta af fullveldi Íslands. Og hvort þetta sé rétt, menn ræddu þetta aðeins í gær en það voru mjög misvísandi skoðanir á því.

Mig langar að spyrja hv. þingmann hver hans skoðun sé á þessu máli og hvort hann þekki nokkur dæmi þess að þetta gerist eða hafi gerst á Íslandi eða í nágrannalöndum, að sjálfstæðar fullvalda þjóðir afsali sér hugsanlega dómsvaldi í málum nema þá með beinni þátttöku í alþjóðasamstarfi sem ekki er um að ræða í þessu tilviki.