138. löggjafarþing — 36. fundur,  3. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[02:27]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S) (um fundarstjórn):

Hæstv. forseti. Mig langar að taka undir með hv. þm. Tryggva Þór Herbertssyni sem hér spyr hvort það teljist eðlilegt að þingmenn vaki í nokkra sólarhringa í röð. Við tökum störf okkar alvarlega, okkur ber að sækja þingfundi og ekki síður ber okkur skylda til að sækja nefndarfundi. Nú eru boðaðir nefndarfundir kl. 8.30 í fyrramálið og það væri ágætt að vita, frú forseti, hvort ætlunin sé að halda þessum fundi áfram fram að þeim tíma eða hvort áform séu um að halda áfram lengur og þá fresta þessum nefndarfundum. Þetta er mjög mikilvægt upp á það hvernig við undirbúum okkur fyrir morgundaginn og hvernig við skipuleggjum framhaldið á störfum okkar hér í kvöld vegna þess að ekki mætum við óundirbúin á nefndarfundi, það er eitt sem víst er. Það eru mörg mikilvæg mál á dagskrá á morgun, t.d. er fundur iðnaðarnefndar klukkan 13 og þar á að ræða gríðarlega mikilvægt mál um (Forseti hringir.) erlendar fjárfestingar.