138. löggjafarþing — 36. fundur,  3. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[02:28]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta fjárln. (Þór Saari) (Hr) (um fundarstjórn):

Virðulegur forseti. Ég hef tekið til máls undir þessum lið fyrr í kvöld um vinnulagið á þinginu og þá rætt við sitjandi forseta hverju sinni. Nú þykir mér fengur að því að vera búinn að fá hæstv. forseta þingsins í forsetastól til að lýsa yfir óánægju minni með vinnubrögð á Alþingi, skipulagið á starfseminni er í algjörri steik. Skipulagið á vinnubrögðunum og það að halda fólki hér fram eftir nóttu við vinnu að mjög mikilvægum málum þar sem þörf er á að hugsa skýrt er þinginu til vansa. Þetta gengur ekki á venjulegum og eðlilegum vinnustöðum. Ég mælist til þess, frú forseti, að þessum fundi verði frestað hið snarasta og fólk komist heim til að hvíla sig þannig að hægt verði að takast á við erfið verkefni morgundagsins. Þetta er löggjafarsamkunda Íslendinga og ef menn vilja ástunda hér vönduð vinnubrögð er það gert öðruvísi en verið er að gera hér í nótt.