138. löggjafarþing — 36. fundur,  3. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[02:43]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta fjárln. (Höskuldur Þórhallsson) (F) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Ég fagna því sérstaklega að hv. þm. Sigmundur Ernir Rúnarsson skuli leggja sig fram um að hlusta á ræður okkar þingmanna. Hann þarf greinilega að hlusta betur, t.d. hafa nokkrir af færustu lögspekingum landsins komið fram og bent á að málið í heild sinni brjóti hugsanlega gegn stjórnarskránni. En að mínu mati er það stórt atriði sem þarf að ræða hér í þaula. Við óskuðum eftir því að það yrði rætt frekar í fjárlaganefnd. Við því var ekki orðið.

Mig langar að beina þeirri spurningu að virðulegum forseta — ég veit að hún er þeirrar skoðunar, ég tel mig a.m.k. muna að hún hafi einhvern tímann talað um að við ættum að reyna að gera þetta að fjölskylduvænni vinnustað — hvort hún sé ekki að brjóta gegn því með því að halda fundi um miðjar nætur, þegar erfiðara er fyrir almenning að hlusta á umræðurnar.