138. löggjafarþing — 36. fundur,  3. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[02:59]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er rétt hjá hv. þingmanni að ég hef setið nánast alla umræðuna í dag og hef hlustað af athygli á þær ræður sem hér hafa verið haldnar. Ég held að eina ræðan sem hér hefur verið haldin af hálfu stjórnarliða hafi verið ræða hæstv. fjármálaráðherra. Ég held að ég fari með rétt mál, ef ekki bið ég þá þingmenn afsökunar á því. En það er nú svo, hv. þingmaður, að enginn hefur komið upp í ræðustól, svo ég hafi heyrt, sem hefur komið með gagnrök við einmitt þessum vangaveltum lögmannanna. Eitthvað slíkt hefur komið fram í viðtali, held ég, við formann fjárlaganefndar að þetta hafi ekki verið svo stórt mál í nefndinni, en að sjálfsögðu þurfa að koma fram önnur rök ef þau eru til staðar. Ég hef ekki heyrt þau og ég held að þau hafi ekki komið fram í þinginu.

Hins vegar er ljóst að mínu viti, hv. þingmaður og frú forseti, að vegna þess hversu stórt málið er og alvarlegt, hlýtur fjárlaganefnd að beita sér fyrir því að óskað verði eftir formlegum álitum um a.m.k. þennan hluta lagafrumvarpsins. Ég vil að sjálfsögðu og hef komið því á framfæri að það þurfi að skoða fleiri þætti. Nei, það hafa ekki komið fram nein gagnrök og er í sjálfu sér full ástæða til að kalla eftir þeim og þá er ég að tala um gagnrök gagnvart þeim vangaveltum (Forseti hringir.) sem koma fram hjá þessum ágætu greinarhöfundum.