138. löggjafarþing — 36. fundur,  3. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[03:01]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Við hv. þm. Gunnar Bragi Sveinsson erum sammála um að við höfum ekki orðið varir við að þeir sem styðja þetta frumvarp eða eru taldir líklegir til að styðja þetta frumvarp í þessum sölum hafi komið fram með nein gagnrök gegn þeim sjónarmiðum sem hafa verið sett fram á opinberum vettvangi, raunar ekki bara í grein lögmannanna í dag í Morgunblaðinu heldur einnig undanfarna daga, allt frá því í síðustu viku. Ég hygg að Sigurður Líndal hafi vakið hvað sterkasta athygli á þessu í grein sem hann birti í Fréttablaðinu 19. nóvember sl. Þess má reyndar geta að við ýmsir þingmenn höfum komið inn á þessi mál allt frá því við 1. umr. en því hefur í engu verið svarað. Það liggur auðvitað líka fyrir að í nefndaráliti meiri hluta fjárlaganefndar var ekkert að þessu vikið og raunar ekki heldur í greinargerð með frumvarpinu ef út í það er farið.