138. löggjafarþing — 36. fundur,  3. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[03:04]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ágæta ræðu. Hún var reyndar stutt eins og ræðutíminn gefur tilefni til og hv. þingmaður vill komast yfir margt. Hann ræddi sérstaklega stjórnarskrármálið. Ég minnist þess að þegar öryrkjadómurinn féll féllu ansi þung orð á Alþingi, frú forseti, frá ýmsum þingmönnum eins og hv. þm. Ögmundi Jónassyni og hv. þm. Þuríði Backman um að sumir þingmenn hefðu verið að brjóta stjórnarskrá með því að samþykkja lög sem Hæstiréttur dæmdi síðan ógild. Nú er það spurning, við hv. þm. Gunnar Bragi Sveinsson þurfum að giska á það, frú forseti, hvaða afstöðu þetta fólk hefur til þess meinta hugsanlega stjórnarskrárbrots sem við erum að ræða hér. Hvernig í ósköpunum eigum við að komast að því? Sér hv. þingmaður einhverja leið til að komast að því hvernig þessir tveir hv. þingmenn og eflaust margir fleiri, því að ég man eftir að þetta olli miklu fjaðrafoki, munu taka á þessum vanda sem þýðir að þessi samningur og þessi lög gætu verið að brjóta stjórnarskrána sem var þeim þá afskaplega heilög?

Nú stöndum við hér og heyrum ekki eitt einasta sjónarmið hv. þingmanna Vinstri grænna og Samfylkingarinnar fyrir utan fjármálaráðherra í dag og við þurfum að giska á afstöðu þeirra. Hið sama þurfa kjósendur að gera. Ef þingmennirnir lýsa ekki skoðun sinni fyrr en bara með atkvæðinu þurfa menn að giska á hvað veldur því að þeir samþykkja þessi ósköp þrátt fyrir allar þær viðvaranir sem hér koma fram aftur og aftur og nýjar og nýjar. Það koma fram nýjar og nýjar upplýsingar, eins og þetta með hugsanlegt stjórnarskrárbrot og t.d. í ræðu hollenska fjármálaráðherrans sem ég ætla að fara ítarlega í á eftir. Við vitum ekki (Forseti hringir.) um afstöðu umræddra þingmanna.