138. löggjafarþing — 36. fundur,  3. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[03:08]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég man þá tíð að hv. þingmenn sem nú eru stjórnarliðar en voru þá stjórnarandstæðingar vitnuðu óspart í löglærða prófessora og aðra úti í bæ sem nú efast um að þetta standist stjórnarskrá. Það er dálítið merkilegt ef þeir bera allt í einu núna ekki sama traust til þeirra og þá. Ég get í rauninni ekki annað en spurt hv. þingmann — nú getur maður ekki beint skriflegri fyrirspurn til þingmanna, maður getur beint henni til ráðherra: Hvernig á maður að komast að því hvernig þetta fólk rökstyður að það styður þetta mál eða styður það ekki þegar það tjáir sig aldrei? Hvað eiga kjósendur þessa fólks að halda? Þurfa þeir að skrifa opið bréf til viðkomandi þingmanns eða hvernig getum við snúið okkur í þessu? Við getum náttúrlega talað undir liðnum um störf þingsins og rætt einslega við hvern einasta þingmann um afstöðuna til Icesave. Það er kannski lausnin.