138. löggjafarþing — 36. fundur,  3. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[03:22]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S) (um fundarstjórn):

Frú forseti. Mig langar að koma hingað upp til að lýsa yfir áhyggjum mínum af því að hv. formaður fjárlaganefndar viti ekki með hvaða hætti menn skuli setja sig á mælendaskrá. Kannski er hægt að leiðbeina hv. þingmanni með það. Svo virðist vera sem hv. þm. Guðbjartur Hannesson, sem ég ber mikla virðingu fyrir, sé kominn að niðurstöðu varðandi þessar efasemdir lögspekinga um fullveldi og stjórnarskrárbrot.

(Forseti (ÁRJ): Um fundarstjórn.)

Já, frú forseti, ég ætla að beina því til virðulegs forseta hvort hún geti aðstoðað mig við að fá þessar upplýsingar fram frá hv. formanni fjárlaganefndar þar sem nú virðist vera komin niðurstaða hjá þeim hv. þingmanni um að þessar vangaveltur varðandi fullveldi og stjórnarskrárbrot séu ekki á rökum reistar. Ég tel að það væri gott fyrir umræðuna sem hv. þingmenn stjórnarliða segja að sé á miklum villigötum ef hv. formaður fjárlaganefndar kæmi (Forseti hringir.) upp í ræðustól, héldi ræðu um þetta og upplýsti okkur um málið.