138. löggjafarþing — 36. fundur,  3. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[03:27]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta fjárln. (Höskuldur Þórhallsson) (F) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Okkur ber ekki alveg saman um hvernig fundur fjárlaganefndar fór fram vegna þess að Ragnhildur Helgadóttir vildi ekki svara því játandi eða neitandi hvort hún teldi að málið í heild sinni bryti gegn stjórnarskránni. Það er rétt að þessir fjórir lögfræðingar fóru efnislega yfir málið. Eiríkur sagði reyndar að hann hefði einfaldlega litið á þetta um morguninn. Okkur ber því ekki alveg saman um þetta og þannig er það einfaldlega.

Varðandi fundarstjórn forseta vil ég beina þeirri spurningu til virðulegs forseta hvort til standi að halda fundinum lengur áfram. Ég vil benda á að það hefur ekki tíðkast á undanförnum árum að funda lengur en til tvö á nóttunni, ef ég man rétt. (Forseti hringir.) Við erum því að horfa upp á algerlega ný vinnubrögð. (Forseti hringir.) Ég vil líka beina þeim tilmælum til hæstv. forseta —

(Forseti (ÁRJ): Tíminn er liðinn.)

— að lemja ekki svona fast í bjölluna.