138. löggjafarþing — 36. fundur,  3. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[03:53]
Horfa

Illugi Gunnarsson (S) (andsvar):

Herra forseti. Þetta er góð spurning. Í umræðunni um öryrkjamálið svokallaða féllu mörg og þung orð um það frumvarp sem stóð til að samþykkja, sem reyndar varð síðan að lögum, og varð deilan svo mögnuð — þetta var fyrir minn tíma á Alþingi og ég vona að einhver leiðrétti mig ef ég fer rangt með — að það endaði með því að forseti þingsins sendi bréf til Hæstaréttar til að kalla eftir skoðun Hæstaréttar á því hvort frumvarpið sem fyrir þinginu lægi gengi í berhögg við stjórnarskrána. Svo þungt lá þetta á þingheimi að menn kölluðu eftir slíku.

Margir þeir sem nú verma ráðherrabekki og eru í stjórnarliðinu hafa tjáð sig þannig um þá stöðu sem nú er uppi, þ.e. að vafi leiki á því að frumvarpið standist stjórnarskrá verði það að lögum, að maður hlýtur að velta fyrir sér hvernig standi á því að í ljósi slíkra ummæla sem eru vissulega til á prenti taki menn þær athugasemdir sem hafa komið fram hjá lögspekingum ekki af meiri alvöru. Hvernig best sé að halda á þessu hvað framtíðina varðar skal ég ekki segja til um en auðvitað hafa menn velt fyrir sér ýmsum lausnum, t.d. að skipaður yrði alveg sérstakur dómstóll sem Alþingi gæti skotið til frumvörpum til að fá mat á það hvort þau stæðust stjórnarskrá eða ekki. Auðvitað kann að vera að það gangi ekki upp til lengdar að menn sendi bréf til Hæstaréttar til að leysa svona deilu, þó að það hafi auðvitað verið ákveðin lausn í því erfiða deilumáli sem var hér uppi í þinginu. (Forseti hringir.)

Þetta mál er ekkert síður mikilvægt en öryrkjamálið.