138. löggjafarþing — 36. fundur,  3. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[03:57]
Horfa

Illugi Gunnarsson (S) (andsvar):

Herra forseti. Fyrst vil ég víkja að spurningum hv. þingmanns um stjórnarskrána og hvort tilefni sé til sambærilegra aðgerða og gripið var til í öryrkjamálinu svokallaða. Ég tel að þótt það mál hafi verið mjög mikilvægt og skipt miklu máli fyrir mjög marga sé þetta mál mun mikilvægara þegar til lengri tíma er litið, hér er jafnvel um að ræða grundvöll efnahagslegs sjálfstæðis þjóðarinnar og því snýr það einmitt að stjórnarskránni og hvaða hætta gæti verið á því að við færum gegn henni.

Ég er í sjálfu sér ekkert endilega að mæla með því að slíkt bréf verði sent en ég kalla mjög eftir því að ítarlegri umræða verði um þetta mál af hálfu stjórnarliðsins en sú sem fólst í því að hv. þm. Guðbjartur Hannesson, formaður fjárlaganefndar, kom hér upp í fundarstjórn forseta til að ræða málið. Það þarf auðvitað miklu betri greinargerð um málið af hálfu stjórnarliða en svo.

Hvað varðar síðan spurninguna um það hvers vegna fyrirvararnir voru settir með þessum hætti, þá var það einmitt út af því að enginn í þessum sal getur gefið einhvers konar tryggingu fyrir því að í efnahagslegu tilliti verði örlög okkar Íslendinga í einhverju frábrugðin örlögum Japana eftir að eignabólan, fasteignabólan og skuldabólan sprungu í andlitið á þeim, það er bara ekki hægt að útiloka að það gerist ekki.

Þess vegna er svo mikilvægt að greiðslur okkar séu tengdar hagvextinum þannig að ef hagvöxturinn er lítill sem enginn séum við ekki að borga of mikið og að það hlaðist þá ekki upp ógreiddir vextir og ógreiddur höfuðstóll heldur sé þetta takmarkað (Forseti hringir.) í tíma þannig að ábyrgðin falli niður þegar komið er fram til ársins 2024.