138. löggjafarþing — 36. fundur,  3. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[04:00]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta fjárln. (Þór Saari) (Hr) (andsvar):

Herra forseti. Ég vil byrja á því að þakka hv. þm. Illuga Gunnarssyni ágæta ræðu. Það hefur verið áhugavert að fá að heyra samanburð hans við önnur mál hér í þinginu og með hvaða hætti þau hafa verið afgreidd því að uppi eru ekki síður mikil vafamál í þessu máli og er þetta þó sennilega eitt það mikilvægasta mál sem nokkurn tíma hefur komið fyrir þingið. Finnst mér með ólíkindum að meiri hlutinn ætli sér að reyna að afgreiða það með þeim hætti sem verið er að gera. Það hefur komið fram hjá hæstv. fjármálaráðherra að svona liggur málið fyrir og svona á þingið að afgreiða það og ekki virðist vera hægt að gera á því neinar breytingar.

Sem betur fer tókst þinginu og hv. formanni fjárlaganefndar að gera breytingar á þeim óskapnaði sem var lagður fyrir þingið í sumar en þá hafði ríkisstjórnin einfaldlega ekki þingmeirihluta fyrir málinu eins og það var. Við getum rétt ímyndað okkur hvernig þetta hefði farið ef hún hefði haft meiri hluta á þeim tíma.

Mig langar til að beina þeirri spurningu til hv. þingmanns eftir yfirlegu hans yfir þessu máli hvort hann telji að það sé hægt eða æskilegt að breyta einhverju í þessu frumvarpi til að gera það hagfelldara fyrir Íslendinga. Við vitum hvernig það lítur út, við vitum hver þrákelkni stjórnarmeirihlutans er til að halda því óbreyttu en ef hægt væri að breyta því væri það æskilegt eða væri bara æskilegast að draga það alfarið til baka? Ef hægt er að breyta því, hverju væri þá hægt að breyta?