138. löggjafarþing — 36. fundur,  3. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[04:18]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (um fundarstjórn):

Hæstv. forseti. Ég vil taka undir með síðasta ræðumanni, hv. þm. Gunnari Braga Sveinssyni, að þetta eru ekki ósanngjarnar spurningar sem verið að bera hér fram. Þetta eru spurningar sem skipta máli og spurningar sem hæstv. forseti ætti að geta svarað, en hæstv. forseti kýs að svara þeim ekki.

Nú liggur auðvitað fyrir að næturfundir hafa verið á Alþingi svo lengi sem elstu menn muna, hygg ég. Þeim hefur þó farið fækkandi og það hefur verið á grundvelli markvissrar stefnu, gerðar hafa verið breytingar á þingsköpum m.a. með það að markmiði að draga úr næturfundum. Ég velti því fyrir mér hvort um sé að ræða einhverja stefnubreytingu sem veldur því að þessi fundur er haldinn núna. Ég velti því líka fyrir mér hvort við hv. þingmenn stjórnarandstöðunnar eigum að búast við því að framhald verði á slíku, og við verðum líka (Forseti hringir.) að velta því fyrir okkur hvort eitthvert innihald (Forseti hringir.) og hvort eitthvað sé á bak við (Forseti hringir.) tal um fjölskylduvæna stefnu í þinginu.