138. löggjafarþing — 36. fundur,  3. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[04:28]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta fjárln. (Þór Saari) (Hr):

Virðulegur forseti. Ég mun halda áfram að ræða nokkur af þeim mikilvægu álitamálum sem eftir eru í þessu risastóra máli, Icesave-málinu. Fyrst ber að nefna, eins og fram hefur komið, að álit Alþjóðagjaldeyrissjóðsins á greiðsluþoli Íslands stangast algerlega á við álit Seðlabankans og álit fjármálaráðuneytisins. Það hefur komið fram að Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn telur í skýrslu sinni að greiðslubyrði Íslands sé ekki sjálfbær næstu fimm árin. Spá þeirra nær ekki fram yfir það, einfaldlega vegna þess að hún nær ekki lengra en fimm ár fram í tímann. Aðspurður sagði fulltrúi Alþjóðagjaldeyrissjóðsins við efnahags- og skattanefnd að hagvöxtur, sem yrði að öllum líkindum að þeim tíma liðnum, gerði það að verkum að Ísland gæti greitt niður þessar skuldir en ekki var sýnt fram á það með neinum efnislegum hætti.

Það er ekkert nýtt að svona komi frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum. Það er alþekkt að þeir fari inn í lönd og komi þar á einhvers konar efnahagsaðgerðum í anda þeirrar nýfrjálshyggju sem tröllriðið hefur sömu löndum og hefur alla vega ekki verið Vinstri grænum sérlega hugstæð en láti sig svo hverfa á brott eftir þrjú til fimm ár, búnir að koma skuldamálum þeirra þjóða sem þeir hafa verið „að aðstoða“ í slíkan hnút að það leysist einfaldlega aldrei úr. Mér sýnist sem svo á þessari niðurstöðu Alþjóðagjaldeyrissjóðsins um Ísland að þetta sé nákvæmlega sama aðferð og verið er að beita hér.

Ítrekað hefur verið óskað eftir upplýsingum um hvernig greiða eigi allar þessar skuldir, hvaðan peningarnir eigi að koma. Það hefur ítrekað komið fram að ekki hafa fengist svör við þeim spurningum. Þannig starfar Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn oft og tíðum. Hann virðist geta komið fram við Íslendinga eins og hann hefur komið fram við allar þær þjóðir sem eiga um sárt að binda eftir áratugaaðstoð frá sjóðnum, þ.e. þær eru komnar í tölu vanþróaðra ríkja. Þetta hefur Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn vissulega gert með stuðningi stjórnvalda í þeim ríkjum þar sem hann hefur starfað og þetta er Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn að gera á Íslandi með stuðningi íslensku ríkisstjórnarinnar og með stuðningi þingmanna Samfylkingar og Vinstri grænna.

Ég tæpti á því áðan að á morgun, eftir hádegi, kl. 1, er ég að fá á minn fund þá kumpána, fulltrúa Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, Franek Rozwadowski og Mark Flanagan. Mér er vel kunnugt um, enda hef ég hitt þá áður, álit þeirra á íslenskri efnahagsstjórn undanfarinna ára. Mér er kunnugt um álit þeirra á starfsemi Seðlabanka Íslands og mér er kunnugt um álit þeirra á íslenskri stjórnsýslu almennt. Ég mun, þegar ég sit fyrir framan þá á morgun, eftir kannski 35 klukkustunda vöku við störf mín á þinginu, óska eftir áliti þeirra á löggjafarvaldi Íslands, með hvaða hætti það starfar. Ég efast ekki um að þeir hafi svipað álit á því og ég hef, þ.e. ekki sérlega gott.

Herra forseti. Allt þetta samanlagt er til þess fallið að rýra enn frekar orðspor Íslands á erlendum vettvangi. Ég var á fundi hjá OECD úti í París fyrir síðustu helgi og þar var oft sagt við mig að þó að leysa þyrfti Icesave-málið væri það ekki stærsti hlutinn af því sem væri að heldur væri það allt hitt, allt kerfið, stjórnsýslan, embættismannakerfið, stofnanirnar, Seðlabankinn, stjórnskipanin, sem hefði gert það að verkum að hið risavaxna hrun varð. Það er sennilega miklu erfiðara að leysa úr því öllu og það er miklu mikilvægara fyrir Ísland á alþjóðavettvangi að takast á við það mál en að reyna að leysa Icesave-málið. Íslensk stjórnvöld geta leyst það með því að halda sig við þau lög sem Alþingi samþykkti í sumar. En það er allt hitt sem þá á eftir að laga og leysa úr þegar og ef Icesave-frumvarpið fer í gegnum þingið.

Því miður, eftir eitt ár og tvo mánuði, er ekkert, og ég endurtek ekkert, verið að gera í því að koma skikki á þá galla í stjórnsýslunni og stofnunum ríkisvaldsins sem gerðu það að verkum m.a. að þetta hrundi. Það voru stofnanir ríkisins sem brugðust, það var framkvæmdarvaldið sem brást og það var löggjafinn sem átti að hafa eftirlit með þessu öllu saman sem brást líka.

Komið hefur fram í fyrirspurn til hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra að starfsemi Fjármálaeftirlitsins hefur ekki verið breytt að neinu marki og enn þá er allt sama starfsfólkið þar við störf nema forstjórinn sem var. Komið hefur fram, í samtölum við seðlabankastjóra hjá efnahags- og skattanefnd, að engu hefur verið breytt í verkferlum Seðlabankans. Það svið í Seðlabankanum sem heitir fjármálastöðugleikasvið, og hvers eina hlutverk, ég endurtek, eina hlutverk, var að tryggja fjármálastöðugleika á Íslandi, með glæsilegum árangri eins og raun ber vitni — m.a.s. það svið starfar áfram óbreytt og starfsemi Seðlabankans og allir starfsmenn í sömu stöðum og þeir voru nema þrír fyrrverandi bankastjórar. En núverandi stjórnvöld héldu að allt væri þeim þremur að kenna. Þó að þeir beri vissulega höfuðábyrgð á því sem gerðist, og þá kannski sérstaklega einn þeirra, þá væri engu að síður um að ræða kerfislægan vanda í þessum stofnunum, í stjórnsýslunni og í stjórnkerfinu.

Þetta gerði það m.a. að verkum að Icesave-málið kom upp og þetta gerir það að verkum, hæstv. forseti, að ekki er hægt að leysa það, það er í sjálfheldu í þinginu, það er búið að vera á valdi embættismanna í átta mánuði að reyna að semja við erlendar þjóðir um þetta mál og þessar embættismannanefndir hafa einfaldlega klúðrað málinu hvað eftir annað. Icesave-málið sjálft er sennilega ekki nema toppurinn á ísjakanum og er þá í framhaldinu kannski útlit fyrir enn lengri og enn fleiri næturfundi á þinginu ef einhvern tíma verður farið að taka á því öllu.

Frá því að þetta mál kom fyrst í þingið í annað sinn hafa komið fram fjölmargir nýir fletir á málinu, á sumum þeirra hefur verið tæpt rækilega og öðrum minna. Fyrir fjárlaganefnd komu í fyrradag fjórir lögspekingar sem ekki voru sammála um hvort hér væri um að ræða brot á stjórnarskrá Íslands. Einn þeirra taldi tvímælalaust svo vera, annar hélt að það gæti hugsanlega verið, tveir voru ekki alveg vissir en annar var þó nánast viss um að svo væri ekki. Að mínu viti er um að ræða það alvarlegt mál að ófært er að þingið reyni að afgreiða það án þess að skorið sé úr um það. Ekkert í íslenskri stjórnskipan gerir Alþingi kleift að skjóta þessu máli eitthvert annað og þess vegna verðum við að halda áfram í þinginu að óska eftir því að málið verði einfaldlega tekið fyrir aftur í fjárlaganefnd og reynt verði að leita eftir skriflegum álitsgerðum færustu sérfræðinga á því hvort hér er hugsanlega um að ræða brot á stjórnarskrá.

Mér finnst það ótækt, og ég má það ekki samkvæmt drengskaparheiti, að taka þátt í vinnu sem hugsanlega gerir það að verkum (Forseti hringir.) að ég brjóti gegn stjórnarskránni. Það er ein af ástæðunum fyrir því að ég stend hér og tala áfram, (Forseti hringir.) ein af fjölmörgum ástæðum sem ég á enn eftir að ræða.