138. löggjafarþing — 36. fundur,  3. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[04:38]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það eru tvö atriði í ræðu hv. þm. Þórs Saaris sem ég vildi nefna. Annars vegar upplýsti hv. þingmaður að hann mundi á morgun eða í dag eiga fund með fulltrúum Alþjóðagjaldeyrissjóðsins — það styttist reyndar mjög í þann fund — þar á meðal Mark Flanagan sem er eftir því sem mér skilst yfirmaður sendinefndar sjóðsins gagnvart Íslandi. Nú vildi ég koma því á framfæri við hv. þm. Þór Saari að hann leiti eftir því hjá þessum hv. embættismanni Alþjóðagjaldeyrissjóðsins hvort hann standi við það sem hann sagði í fjölmiðlum fyrir nokkrum vikum síðan, og kom reyndar líka fram í bréfi frá Dominique Strauss-Kahn, að Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn hefði aldrei, ekki á nokkru stigi, sett nein skilyrði sem vörðuðu afgreiðslu Icesave-málsins og tengdu það ekki með neinum hætti endurskoðun á efnahagsáætlun Íslands.