138. löggjafarþing — 36. fundur,  3. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[04:42]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta fjárln. (Þór Saari) (Hr) (andsvar):

Herra forseti. Jú, ég er þeirrar skoðunar að það hefði þurft að gera það strax frá upphafi. Það var athyglisvert að fylgjast með sjónvarpsþáttum sem voru um daginn um hrunið. Maður sá sömu embættismennina trítla út ferð eftir ferð í nýrri og nýrri leit að nýjum og nýjum samningi og alltaf komu þeir til baka með verri og verri samning. Sá sem stýrði því að alltaf var verið að notast við sama fólkið ber náttúrlega höfuðábyrgð á því að svo fór sem fór. Svona gera menn einfaldlega ekki ef þeir eru að hugsa skýrt og sérstaklega ef hagur þjóðarinnar er í húfi.

Þetta er auðvitað stórfelld milliríkjadeila og hana þarf að reyna að leysa á hæsta pólitíska plani sem hugsast getur. En ferðagleði hæstv. forsætisráðherra hefur alla vega ekki verið slík að hún hafi treyst sér til að (Forseti hringir.) hitta ráðamenn annarra þjóða út af þessu máli. (Forseti hringir.) Það má kannski segja að það sé gallinn, það sé skýringin á því sem fór úrskeiðis.