138. löggjafarþing — 36. fundur,  3. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[04:44]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta fjárln. (Þór Saari) (Hr) (andsvar):

Herra forseti. Ég starfaði sjálfur í Seðlabankanum þegar Bankaeftirlitið, sem svo var kallað, var einfaldlega lagt niður og Fjármálaeftirlitið var stofnað. Það var gert í samræmi við nýja löggjöf og alls konar kerfisbreytingar sem þá þurfti að fara í gegnum. Það voru uppi talsverðar efasemdir um hvort þetta væri æskilegt á þeim tíma því að Seðlabankinn hafði mikla reynslu í utanumhaldi utan um bankaeftirlit og er hvað svo sem hefur gengið á öflug stofnun. Fjármálaeftirlitið var óburðugt frá fæðingu og ekki síst kannski vegna þess að fyrsti forstjóri þess var pólitískt skipaður en ekki skipaður á faglegum forsendum. Eins og gerist oft með slíka skipan í embætti ná menn einfaldlega ekki þeim faglega slagkrafti sem þarf. Vissulega getur verið að æskilegt væri að færa Fjármálaeftirlitið aftur undir Seðlabankann en það þarf þá líka að endurskipuleggja (Forseti hringir.) báðar stofnanirnar innan frá.