138. löggjafarþing — 36. fundur,  3. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[04:49]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta fjárln. (Þór Saari) (Hr) (andsvar):

Herra forseti. Ég hef legið yfir þessu máli síðan í byrjun júní og er alveg sannfærður um að þeir fyrirvarar og það mál sem núna liggur fyrir þinginu er allt annars eðlis en málið sem var afgreitt héðan í sumar. Það er einfaldlega byggt á misskilningi hæstv. ráðherra ef þeir halda því fram að málið sé betur búið en það var. Þeir skilja annaðhvort ekki málið eða kjósa að halda einhverju fram sem ekki er satt. Ekki get ég vænt þá um það og því hlýtur hér einfaldlega að vera um misskilning að ræða. Það er hins vegar athyglisvert að það hefur verið bent á þennan misskilning áður en fæstir ráðherrar hafa samt séð sér færi á að koma og hlusta á umræður um þetta mál til þess að kynna sér það. Þeir kjósa einfaldlega að vera með höfuðið í sandinum í þessu máli.