138. löggjafarþing — 36. fundur,  3. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[04:50]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þm. Þór Saari þekkir þetta mál afskaplega vel, eins og kom fram í ræðu hans, og fór vel yfir það í sumar. Menn velta því hér upp að of langur tími sé tekinn í þessa umræðu en þetta er kannski ein helsta ástæðan fyrir því að þessi umræða er rétt að byrja. Það að beita okkur ofbeldi með því að virðulegur forseti berji eins oft og eins hátt í bjölluna og mögulegt er og allir þessir taktar sem við þekkjum hafa ekkert með efni málsins að gera. Við erum í þeirri stöðu að í besta falli misskilja hæstv. ráðherrar málið í grundvallaratriðum, hvorki meira né minna. Í þessari stöðu erum við í stjórnarandstöðunni og það er afskaplega mikilvægt að við komum þessum skilaboðum áleiðis úr (Forseti hringir.) ræðustóli Alþingis.