138. löggjafarþing — 36. fundur,  3. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[04:57]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S) (um fundarstjórn):

Hæstv. forseti. Mig fýsir að fá svör við þeim spurningum sem bornar hafa verið fram til hæstv. forseta varðandi hvort rétt sé að hér hafi verið haldinn lokaður fundur Alþingis í kvöld. Ef svo er, eru einhverjar skýringar á því og þá hvenær hafi verið lokað á þingpöllum? Nú er það svo að hv. þm. Birgir Ármannsson hefur upplýst að hann hafi fengið send boð frá aðilum sem stóðu fyrir utan þinghúsið og vildu koma og fylgjast með þessum mikilvægu umræðum hér en komu að luktum dyrum. Ég leyfi mér að fullyrða, hæstv. forseti, að það sé gríðarlega nauðsynlegt að forseti upplýsi okkur um það og fullvissi okkur um að hann taki þessu máli ekki létt. Mér sýnist þetta vera hreint brot á ákvæðum stjórnarskrárinnar þar sem er fjallað um að fundi í þinginu skuli halda fyrir opnum dyrum. Ég vonast til þess að hæstv. forseti svari þessari spurningu.